Undanfarna mánuði hefur starfsfólk Bílabúsins útbúið skráningarforrit ásamt því að skrá þær vörur sem fyrir eru til í hillunum. Það getur ýmislegt gerst þegar blaðamaður og tölvunarfræðingur koma saman.

Þegar búið er að skrá varahluti í tölvukerfi er auðvelt að útfæra það og birta vöruskrána á netinu, það er nánast tilbúið og allar okkar vörur (og lagerstaða) verða sýnilegar á netinu ásamt upplýsingum um verð. Einnig hvort varan sé á bíl eða í hillu.

Við getum ekki ætlast til þess að viðskiptavinir okkar séu kerfisfræðingar eða viti hvað passi í hvaða bíl. Vörurnar okkar eru flokkaðar eftir bílum og því tímabili sem hver bíll er óbreyttur.
Númer varahluta

Hægt er að leita eftir OE númeri varahluta, þ.e. því númeri sem framleiðandi bílsins notar. Þetta á einkum við um rafeindabúnað og annan búnað þar sem aukinnar nákvæmni er þörf til að tryggja rétta afgreiðslu.
Innkaupakarfan

Mjög auðvelt er að senda fyrirspurn eða pöntun til okkar. Vörum er einfaldlega safnað í innkaupakörfuna og framhaldið skýrir sig sjálft.
Verðin

Við reynum að vera nákvæm í verðlagningunni en hugsanlegt er að einhver verð séu of há. Sumar vörur eru á núllverði, það þýðir því miður ekki að varan sé ókeypis; verðið er einfaldlega óljóst og þarfnast einhverrar athugunar. Betra að birta vöru án verðs en að birta hana ekki.
Myndir

Enn í þróun
Kerfið er enn í þróun og verður það svo lengi sem það lifir. Eitt óklárað verkefni er svokölluð tengiskrá sem tengir hluti við fleiri bíla en þann sem hluturinn kemur úr. Til dæmis má nefna að rúðuþurrkumótor úr VW Golf árgerð 2005 passar líka á Skoda Octavia frá svipuðum tíma. Annað sem eftir er að „tengja“ eru bílar sem fá svokallað „face lift“, þ.e. sami bíll en ekki alveg sama útlit. Til dæmis má nefna að Skoda Octavia 2004 til 2013 er nánast sami bíll en er samt skráður í tvennu lagi, 2004 – 2008 og svo 2008 til 2013. Þetta leiðir af sér að hlutir sem skráðir eru á árgerðir 2004 til 2008 eru ekki enn sýnilegir fyrir yngri bílinn og öfugt. Kemur ekki mikið að sök en stendur þó til bóta.
Rekjanleiki
Einn horsteinn kerfisins er uppruni hlutarins; viðskiptavinurinn sér úr hvaða bíl hluturinn er. Undantekningar eru þær vörur sem þegar eru á lager og engin leið að vita með vissu úr hvaða bílum þær komu.
